Saga 2016-09-29T22:36:41+00:00

Upphafið af félagasamtökum meðal nemenda í viðskiptanámi má rekja allt til ársins 1939 þegar stúdentafélag Viðskiptaháskóla Íslands var stofnað að Garði þann 24. nóvember sama ár. Tilgangur félagsins var að vinna að áhuga- og hagsmunamálum félagsmanna og skólans. Félagið tók þegar upp félagslega baráttu og tók málefni skólans fyrir á fundum sínum. Þar var á meðal annars fundað um fyrirkomulag próf, framtíðartitil félagsins, styrki og lagðar voru fram tillögur að úrbótum.

Haustið 1941 var Viðskiptaháskólinn sameinaður Háskóla Íslands og varð hluti af lagadeild Háskólans og nefndist laga- og hagfræðideild. Það ár var félagslífið fremur dauflegt sökum annríkis nemenda og mjög skiptra skoðana um hvort ganga skyldi í félag laganema, Orator, eða endurbæta gamla stúdentafélagið. Úr varð að halda áfram starfsemi Stúdentafélags Viðskiptaháskólans og á aðalfundi 5. nóvember árið 1942 var félaginu breytt í deildarfélag. Miklar umræður voru um nafn á félagið og komu meðal annars fram hugmyndir um að kalla það Gylfa, Gylfaginning, Oikos, Félag viðskiptavina, Félag viðskiptanema og Kaupa-Héðinn. Nafnið Kaupa-Héðinn varð ofan á og stefndi hið nýja félag á að halda árlega kynningarfundi fyrir nýstúdenta, fara í skemmtiferðir og halda skemmtikvöld. Ekki varð þó mikið úr starfsemi félagsins og eru engar skjalfestar heimildir til um starfsemi þess síðan frá þessum fyrsta og eina aðalfundi.

Þann 12. desember árið 1946 var svo stofnað Félag viðskiptafræðinema og var markmið félagsins tvíþætt. Í fyrsta lagi átti félagið að vinna að hagsmunamálum viðskiptanema og í öðru lagi að vera málfunda- og skemmtifélag. Á þessum stofnfundi var kosinn formaður, gjaldkeri og ritari og á næstu árum voru haldnir ýmsir fundir um deildarmálefni og þjóðmál. Það var síðan árið 1953 að viðskiptanemar fóru í sinn fyrsta vísindaleiðangur, en það var í aðalstöðvar SÍS og var 45 nemendum og kennurum boðið til Akureyrar að skoða verksmiðjurekstur SÍS. Var það hin ánægjulegasta ferð.

Fleiri slíkar ferðir voru farnar á næstu árum sem og að ýmislegt var aðhafst til uppbyggingar og eflingar félagsins. Til dæmis var haldið hátíðlega upp á 15 ára afmæli deildarinnar árið 1956 og árið 1961 gekk félag viðskiptafræðinema í AIESEC (alþjóðasamtök viðskipta- og hagfræðinema) og fóru fram fyrstu stúdentaskiptin þá um sumarið. Þá kom út í fyrsta skiptið blað deildarinnar Hagmál og var því einkum ætlað það hlutverk að tengja deildina við atvinnulífið.

Það var einnig það merka ár 1961 sem að verndari deildarinnar og tákn „Mágus“ var vígður með viðhöfn á 20 ára afmæli deildarinnar þann 21. nóvember. Árið 1962 voru viðskipta- og lagadeild síðan aðskildar og héldu Mágus og Orator sérstakan aðskilnaðarfund þar sem verndartákn hvors félags voru kvödd og starfsemi þeirra að öllu skilin.

Veturinn 1965-66 kemst svo nýtt líf í félagið. Kynningarkvöld fyrir nýstúdenta voru endurvakin og fyrsti hádegisfundur félagsins var haldinn í janúar 1966. Farið var í vísindaleiðangur til Akureyrar í boði KEA og SÍS. Merki deildarinnar leit dagsins ljós á deildardaginn og haldinn var afmælisfagnaður í tilefni 25 ára afmælis deildarinnar. Á aðalfundi í október 1966 var síðan stofnuð sérstök skemmtinefnd fyrir viðskiptafræðideildina sem nefndist „Tradition“ og var hlutverk hennar að halda uppi ýmsum hefðum og standa fyrir sprelli á sérstökum tyllidögum innan deildarinnar.  Að sjálfsögðu, hefðinni samkvæmt, er þessi nefnd enn til staðar og sinnir sínu hlutverki af mikilli alúð og kappi.

Það mætti segja, að alveg frá stofnun félagsins árið 1946 hafi það dafnað og vaxið og sé í dag eitt stærsta og öflugasta nemendafélag landsins. Það má með sanni segja að þó að mörg ár séu liðin frá því að hlutverk félagsins var fyrst skilgreint þá hafi það lítið sem ekkert breyst. Mágus hefur enn það hlutverk helst að aðstoða námsþreytta viðskiptafræðinema við að lyfta sér upp annars lagið, sem og að berjast fyrir hagsmunum nemenda innan deildarinnar. Þessu verður áfram sinnt um ókomna framtíð af mikilli elju komandi stjórna og að sjálfsögðu með hjálp áhugasamra nemenda.

Mágus lengi lifi!