Lög Mágusar 2021-04-08T14:25:46+00:00

NAFN, TILGANGUR OG FÉLAGAR

1.gr. Nafn félagsins er Mágus, félag viðskiptafræðinema og er aðsetur félagsins er í kjallara Odda við Sturlugötu. Verndari og tákn félagsins er refur og ber hann nafn félagsins. Refurinn Mágus skal vera viðstaddur allar meiriháttar samkomur félagsins, nema ástæða þyki gefa til að hann verði skemmdur að einhverju leyti.

2.gr. Tilgangur félagsins er að vinna að félagslegum og hagsmunalegum málefnum viðskiptafræðinema og vera málsvari þeirra innan skólans og utan. Þá skal félagið stuðla að betri umræðu um fræði deildarinnar, halda uppi sambandi við hagsmunafélög Viðskipta- og Hagfræðinga og hvetja til útgáfu á þessu sviði.

3.gr. Félagar eru allir þeir sem innritaðir eru í háskólanám á Íslandi og greitt hafa félagsgjöld hverju sinni. Félagsgjöld og upphæð þeirra skulu ákveðin af stjórn Mágusar. Stjórn félagsins lætur útbúa félagaskírteini, sem afhenda skal hverjum félagsmanni, er hann hefur greitt árgjald sitt. Þeir félagsmenn sem greitt hafa árgjald til Mágusar njóta fríðinda umfram aðra nemendur. Þau fríðindi eru:

 1. Aðgangur að vísindaferðum yfir skólaárið.
 2. Tilboðskjör á alla viðburði Mágusar.
 3. Tilboðskjör á heimabar Mágusar. Tilboð og heimabar er ákveðið af stjórn Mágusar ár hvert.
 4. Eintak af Mágusartíðindum, tölublaði Mágusar.

Stjórn Mágusar er heimilt að auka við fríðindi félagsmanna hverju sinni.

4.gr. Í upphafi haustannar skal stjórn Mágusar kynna félagið og starfsemi þess fyrir erlendum nemum við deildina. Allar tilkynningar í nafni Mágusar sem sendar eru í tölvupósti til nemenda skulu einnig hafa enskan úrdrátt.

STJÓRN OG NEFNDIR

5.gr. Æðsta vald, milli aðalfunda, í málefnum félagsins og þeirra nefnda sem starfa innan þess skal vera í höndum stjórnar félagsins, sem skal skipuð sex viðskiptafræðinemum; formanni sem jafnframt á sæti á deildarfundum Viðskiptafræðideildar, gjaldkera, markaðsstjóra, ritstjóra Mágusartíðinda, formanni íþróttanefndar og skemmtanastjóra. Nýkjörin stjórn kýs sér varaformann innan tveggja vikna frá aðalfundi. Varaformaður gegnir einnig hlutverki hagsmunafulltrúa Mágusar.

6.gr. Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkum sem lög þessi setja. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundum, ræður atkvæði formanns úrslitum.

7.gr. Í félaginu starfa fjórar nefndir:

 1. Skemmtinefnd skal skipuð sex aðilum; skemmtanastjóra Mágusar sem er kjörin á aðalfundi ár hvert og fimm félagsmönnum tilnefndum af honum. Hlutverk skemmtinefndar er að annast árshátíð og skíðaferð félagsins. Auk þessa skal nefndin vera stjórn Mágusar innan handar hvað varðar skemmtanahald innan félagsins og aðstoða ef þurfa skyldi.
 2. Ritnefnd Mágusar skal skipuð fimm aðilum; ritstjóra Mágusartíðinda sem er kjörin á aðalfundi ár hvert og fjórum félagsmönnum tilnefndum af honum. Hlutverk ritnefndar er að annast útgáfu Mágusartíðinda, sem skal gefið út einu sinni á starfsári hið minnsta.
 3. Íþróttanefnd skal skipuð þremur aðilum; Formanni íþróttanefndar Mágusar, sem er kjörinn á aðalfundi ár hvert, og þremur félagsmönnum tilnefndum af honum. Hlutverk íþróttanefndar er að halda í það minnsta tvo íþróttaviðburði á hvorri önn skólaársins. Sömuleiðis skal nefndin aðstoða stjórnina við umsjón á Mágus – Markaðsráð deginum og á útgáfudegi Mágusartíðinda.
 4. Markaðsnefnd skal skipuð þrem aðilum; markaðsstjóra Mágusar sem er kjörin á aðalfundi ár hvert og tveimur félagsmönnum tilnefndum af honum. Hlutverk markaðsnefndar er að sjá um allt kynningarstarf fyrir Mágus, myndbandagerð og annað til að auglýsa viðburði Mágusar.

Skilyrði er að frambjóðendur í nefndir séu félagsmenn Mágusar.

8.gr. Fulltrúi nýnema skal valinn af stjórn Mágusar í upphafi haustannar. Hann skal vera í forsvari fyrir nýnema og hefur seturétt á stjórnarfundum, þó ekki atkvæðarétt.

9.gr. Vefstjóri skal skipaður af sitjandi stjórn fyrir ár hvert. Vefstjóri sér um að heimasíða Mágusar sé virk og uppfylli hlutverk síðunnar.

10.gr. Ef stjórnarmaður Mágusar fær á sig vantraustsyfirlýsingu frá stjórn, skal hann umsvifalaust víkja sæti ef einróma samþykki annarra stjórnarmanna hlýst. Ef félagsmaður Mágusar hyggst lýsa vantrausti á meðlim stjórnar skal sá hinn sami leggja fram skriflega beiðni til stjórnar, með undirskrift 30% félagsmanna hið minnsta. Skal umræddur stjórnarmaður þá umsvifalaust víkja sæti sínu.

STARFSEMI

11.gr. Nýnemaferð og kynningarfundur fyrir nýnema skal haldinn í upphafi haustannar ár hvert, hið mesta 2 vikum eftir að almenn kennsla hefst.

12.gr. Stjórn félagsins ber skylda til að kveða til almenns félagsfundar ef minnst 1/5 hluti félagsmanna æskir þess. Sé að minnsta kosti þriðjungur þar mættur, hefur fundurinn æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.

13.gr. Vísindaleiðangar skulu farnir minnst sex sinnum hvora önn, innan borgar eða utan.

14.gr. Árshátíð Mágusar skal haldin í febrúar eða mars ár hvert.

15.gr.  Stjórn Mágusar skal kappkosta við að halda Mágus – Markaðsráð daginn og Mágus – Orator daginn hvert skólaár. Þar etja nemendafélögin kappi í ýmiskonar íþróttagreinum og öðrum keppnum.

 1. Ef ekki telst mögulegt að halda Mágus – Markaðsráð daginn og/eða Mágus – Orator daginn, þá skal stjórn Mágusar kappkosta við að halda sameiginlega skemmtun með öðru nemendafélagi.

16.gr.  Legacy skemmtun skal haldin hvert skólaár til heiðurs Mágusar, verndara félagsins.

17.gr. Megin samskiptamiðlar Mágusar eru heimasíða og Facebooksíða félagsins. Þessum miðlum skal haldið við og upplýsingar til félagsmanna skulu vera uppfærðar reglulega.

18.gr. Gefin skulu út Mágusartíðindi sem er rit innan viðskiptafræðideildar. Ritið skal innihalda skemmtiefni og efni um viðskipta- og hagfræðileg málefni. Ritið er notað til kynningar á deildinni og félaginu.

19.gr. Mágus er aðili að NESU (félagi viðskipta- og hagfræðinema á Norðurlöndunum). Markaðsstjóri Mágusar er tengiliður Mágusar við NESU og skal sjá til þess að einn dagur á ári skuli vera tileinkaður því að kynna NESU fyrir félagsmönnum.

20.gr. Eftirfarandi nefndir innan Mágusar skulu halda reikningum sínum sérgreindum. Gjaldkeri Mágusar hefur yfirumsjón yfir þeim reikningum.

 1. Ritnefnd.
  Allur mögulegur hagnaður Mágusartíðinda rennur til nemendafélags Mágusar.
 2. Skemmtinefnd
  Allur mögulegur hagnaður Mágusargleði/árshátíðar rennur til nemendafélags Mágusar.

21.gr. Starfsár og reikningsár félagsins miðast við aðalfund. Tekjuafgangi hvers árs skal ráðstafað að öllu leyti til viðtakandi stjórnar og skal stjórn hvers starfsárs kappkosta við að skila af sér að lágmarki 300.000 kr. í tekjuafgangi til viðtakandi stjórnar.

AÐALFUNDUR

22.gr. Aðalfundur skal haldinn í lok mars eða byrjun apríl ár hvert.

23.gr. Til aðalfundar skal boðað með áberandi auglýsingu á heimasíðu félagsins og auglýst vel. Boðað skal til aðalfundar með minnst 2 vikna fyrirvara. Skal auglýst eftir lagabreytingartillögum og framboðum til stjórnarkjörs með sama fyrirvara. Tillögum til lagabreytinga og framboðum skal skilað til stjórnar Mágusar minnst viku fyrir aðalfund. Framboð til stjórnarkjörs skulu leyfð á aðalfundi aðeins ef enginn framboð hafa borist til viðkomandi starfa.

24.gr. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar 2 dögum fyrir aðalfund með áberandi hætti. Til samþykkis lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

25.gr. Formaður Mágusar, í fjarveru hans varaformaður, setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra sem síðan stýrir fundinum.

26.gr. Aðeins félagsmenn Mágusar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi, nema annars sé getið í lögum þessum.

27.gr. Dagskrá aðalfundar skal vera:

 1. Fundarmenn skulu votta refnum Mágus virðingu sína.
 2. Skýrsla stjórnar.
 3. Gjaldkeri félagsins leggur fram ársreikning félagsins.
 4. Umræður um skýrslur og ársreikning.
 5. Lagabreytingar og kosning þess efnis.
 6. Kynning frambjóðenda í stjórn Mágusar næsta skólaárs.
 7. Kosning til næstu stjórnar hefst.
 8. Önnur mál.

Niðurstöður kosninga skulu tilkynnt á Kosningavöku Mágusar eigi síðar en tveimur sólarhringum eftir að kosning hefst.

28.gr. Stjórn félagsins skal kosin sem hér segir:

 1. Formaður: Ber ábyrgð á heildarstarfsemi félagsins og ber jafnframt þyngstu ábyrðina. Hann úthlutar m.a. verkefnum og sér til þess að þeim sé framfylgt.
 2. Skemmtanastjóri: Ber fyrst og fremst ábyrgð á skemmtinefnd, skíðaferð og árshátíð Mágusar.
 3. Gjaldkeri: Ber ábyrgð á fjármunum Mágusar. Hann greiðir reikninga og sendir reikninga. Hann skilar inn ársskýrslu Mágusar á aðalfundi ár hvert.
 4. Markaðsstjóri: Sér um alla markaðssetningu félagsins. Hann sér jafnframt um að kynna Mágus fyrir alþjóðanemum og er tengiliður inn í NESU.
 5. Formaður íþróttanefndar: Ber fyrst og fremst ábyrgð á íþróttanefndinni, þeim fjórum viðburðum sem íþróttanefnd ber að halda og hefur yfirumsjón með Mágus – Markaðsráðs deginum.
 6. Ritstjóri Mágusartíðinda: Ber fyrst og fremst ábyrgð á ritnefnd Mágusar og útgáfu Mágusartíðinda. Ritstjóri er einnig ritari og skal skila fundarskýrslu eftir hvern einasta fund Mágusar.

29.gr. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Nái tillaga til lagabreytinga samþykki 2/3 hluta fundarmanna, fær hún gildi.

30.gr. Atkvæðagreiðsla á aðalfundi skal vera leynileg, komi fram ósk þess efnis á fundinum.

31.gr. Sami einstaklingurinn má hvorki bjóða sig fram til né gegna fleiri en einni stöðu sem kosið er til innan Mágusar í senn. Undir þetta ákvæði falla ekki þær stöður sem stjórn félagsins skipar í.

32.gr. Segi stjórn Mágusar af sér fyrir lok kjörtímabils síns ber henni að efna til kosninga áður en hún lætur af störfum.

33.gr. Láti stjórnarmeðlimur Mágusar af störfum fyrir lok kjörtímabils síns, skal stjórn Mágusar ákveða hverju sinni hvernig staðið skal að ráðningu arftaka hans.

34.gr. Ef auðir seðlar eru hlutfallslega fleiri en greidd atkvæði hæsta frambjóðanda nær hann ekki kjöri. Skal þá innan vikutíma auglýsa eftir nýjum frambjóðendum og halda í framhaldi af því nýjar kosningar sem skulu haldnar á lokahófi Mágusar.

35.gr.  Ef frambjóðandi er einn í framboði þá skal hann fá 2/3 greiddra atkvæða til að ná kjöri. Ef það næst ekki þá skal auglýsa eftir nýjum frambjóðendum og halda í framhaldi af því nýjar kosningar sem skulu haldnar á lokahófi Mágusar.

36.gr. Ef tveir eru jafnir en fleiri í framboði, skal kosið aftur á milli tveggja efstu.

37.gr. Komi ekki framboð til embættis eða stöðu í stjórn Mágusar fyrir aðalfund vorannar, eða á aðalfundi sbr. 22.gr., skal halda kosningar aftur á próflokahófi Mágusar. Ef ekki enn er komið framboð skulu kosningar haldnar í upphafi haustannar.

38.gr. Ef ekki er búið að fylla í stöðu innan stjórnar Mágusar þá skal stjórn skipa í stöðuna tímabundið eða þar til að sá sami hefur verið kjörin í kosningum á aukaaðalfundi haustannar. Á meðan verið er að finna aðila, þá skal formaður taka að sér hlutverk þess og bera ábyrgð á því, nema annað sé ákveðið af þáverandi stjórn.

39.gr. Verði tveir eða fleiri efstir og jafnir í kosningum Mágusar skal kosið aftur á próflokahófi Mágusar. Ef aftur er jafnt skal steinn-skæri-blað, besta af þremur, skera úr um hver nær kosningu.

ÖNNUR MÁL

40.gr. Allir prófessorar og kennarar viðskiptafræðideildar hafa rétt til setu á fundum félagsins og njóta þar fullkomins mál- og tillögufrelsis, svo og þeir sem til þeirra eru boðaðir.

41.gr. Í lok hvers skólaárs skal fráfarandi stjórn gera ítarlega skýrslu um allt starfsárið. Tilgangur hennar er að koma upplýsingum til næstu stjórnar. Það skal tala um hvern atburð fyrir sig og tekið fram hvað heppnaðist vel og hvað ekki. Einnig skal hvert embætti skila af sér greinagóðri lýsingu af sínu starfi. Þessu skal skilað fyrir 1.júlí ár hvert.

42.gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Með þeim eru úr gildi felld öll eldri lög félagsins.

43.gr. Lög þessi eru frá 08.10.1983, með breytingum frá 16.10.1987, 14.10.1988 og með breytingum frá 20.10.1989, frá 27.09.1991, frá 31.03.2006, frá 30.03.2007, frá 03.04.2009, frá 09.04.2010, frá 29.03.2012, frá 30.03.2017, frá 26.03.2018 og frá 28.03.2019. Öðlast breytingar þegar gildi, nema lög 28.gr sem að öðlast gildi í kosningum til stjórnar vorið 2020.